Vísindamenn frá Háskólanum í Reykjavík urðu í gær heimsmeistarar í gervigreind á stærstu gervigreindarráðstefnu heims sem nú er haldin í Chicago. Þeir lögðu að velli Háskólann í Kaliforníu (UCLA) í úrslitum, að því er fram kemur í fréttatilkynningu.

Dr. Yngvi Björnsson, Hilmar Finnsson, rannsakandi, og Gylfi Þór Guðmundsson, meistaranemi hönnuðu búnaðinn.

Þetta er annað árið í röð sem Háskólinn í Reykjavík vinnur keppnina, en hún snýst um að búa til hugbúnað sem lærir af reynslu.

Hugbúnaðurinn þarf að geta spilað nánast hvaða leik sem er. Hann veit ekki fyrirfram hvaða leik hann á að spila, heldur fær hann reglurnar uppgefnar og lærir sjálfur hvað þarf til að spila leikinn vel.