*

þriðjudagur, 3. ágúst 2021
Innlent 18. maí 2013 19:45

Íslendingar vinna 223 daga á ári

Sérstakir frídagar eru samtals 11 hér á landi en þeir geta verið á bilinu 9 til 13. Vinnustundir eru sambærilegar og í Danmörku.

Edda Hermannsdóttir
Haraldur Jónasson

Íslendingar vinna 223 virka daga á ári ef tekið er tillit til orlofsdaga og annarra frídaga. Þá er miðað við að orlofsdagar séu að meðaltali 27 og sérstakir frídagar 11. Meðaltal orlofsdaga íslensks starfsfólks hefur ekki verið reiknað en þeir eru yfirleitt á bilinu 24-30 á ári. Að líkindum eru þeir á bilinu 27-28 að meðaltali. Þetta kemur fram í hagtölum frá Samtökum atvinnulífsins.

Sérstakir frídagar eru mismargir eftir árum þar sem sumir þeirra lenda á helgum. Þeir geta verið á bilinu 9 til 13. Þegar Ísland er borið saman við önnur Evrópulönd er Ísland með færri umsamdar vinnustundir á ári samkvæmt kjarasamningum en flest önnur lönd.

Samtals eru umsamdar vinnustundir á Íslandi 1.641 talsins en Frakkland er með fæstar vinnustundir, 1.581. Rúmenía er með flestar vinnustundir á árinu, samtals 1.864. Í samanburði við Norðurlöndin eru umsamdar vinnustundir á Íslandi svipaðar og í Danmörku en í Svíþjóð og Noregi eru þær fleiri.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.