Sjónvarpsauglýsingin Hægðu á þér vann gullverðlaun í helstu auglýsingasamkeppni Evrópu, Eurobest Awards fyrir árið 2004. Auglýsingin var gerð af auglýsingastofunni Hvíta húsinu og Spark kvikmyndagerð fyrir Umferðarstofu. "Hún vakti mikla athygli og umtal þegar hún var frumsýnd hér, en auglýsingin sýnir afleiðingar hraðaksturs á frumlegan og dramatískan hátt," segir í fréttatilkynningu. Hugmyndasmiður og grafískur hönnuður auglýsingarinnar er Bjarney Hinriksdóttir og leikstjóri Guðjón Jónsson.

Alls tóku 1.086 sjónvarpsauglýsingar þátt í keppninni í ár í öllum flokkum, og komust 179 þeirra í úrslit. Auglýsingin Hægðu á þér hlaut gullverðlaun í flokknum Public Health and Safety. "Eurobest Awards eru virtustu auglýsingaverðlaun sem veitt eru í Evrópu og hafa verið veitt í sautján ár. Í dómnefnd sitja fulltrúar helstu auglýsingastofa Evrópu, auk leikstjóra og framleiðenda." segir ennfremur í tilkynningunni. Þetta er í fyrsta sinn sem íslensk auglýsing vinnur þessi eftirsóttu verðlaun.