Fyrirtækið ARC hf. hefur ekki verið mikið í umræðunni, en er ef til vill þekktara undir sínu fyrra nafni. Lengst af hét fyrirtækið Íslenskt kolvetni og átti það eitt af þremur sérleyfum vegna rannsókna og vinnslu á jarðefnaeldsneyti á Drekasvæðinu.

Árið 2014 var sérleyfinu hins vegar skilað og hefur ekki farið mikið fyrir félaginu síðan. Á síðasta ári skipti það hins vegar um nafn og stendur skammstöfunin ARC fyrir Arctic Resources Capital.

Enginn munur á áherslum

„ARC var stofnað í kringum olíuleit á Drekasvæðinu og steindarannsóknir á Grænlandi. Eina ástæðan fyrir að félagið á Íslandi breytti um nafn var að við skiluðum leyfinu og við urðum að vera með íslenskt félag í kringum Drekasvæðisleitina. Það var enginn munur á áherslum,“ útskýrir Eldur Ólafsson, framkvæmdastjóri ARC, í samtali við Viðskiptablaðið.

Félagið einbeitir sér nú alfarið að námuvinnslu á tveimur svæðum á Grænlandi. Sex námavinnsluleyfi eru í Grænlandi og er ARC með tvö þeirra. Um er að ræða námur þar sem vinnsla fór fram um árabil en hefur ekki verið í gangi um nokkra hríð. Innviðir á borð við hafnir og vegi eru til staðar við þessar námur og þörfin fyrir fjárfestingar er því mun minni.

Námur ARC eru annars vegar sinknáma á Maarmorilik-svæðinu á Vestur-Grænlandi og hins vegar Nalunaq-gullnáman á Suður-Grænlandi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .