*

fimmtudagur, 29. júlí 2021
Innlent 21. ágúst 2016 09:34

Íslendingar vinna langmest

Íslendingar vinna meira heldur en nágrannaþjóðirnar og munurinn hefur aukist undanfarin ár.

Ritstjórn
Vinnustundum Íslendinga hefur fjölgað.
Haraldur Guðjónsson

Viðskiptaráð vekur athygli á því í nýrri skýrslu sinni að vinnuframlag Íslendinga hefur aukist umtalsvert undanfarin ár þrátt fyrir að hafa þegar verið mun meira en í samanburðarlöndum árið 2011. Skýrsla Viðskiptaráðs heitir „Leiðin að aukinni hagsæld“ og í henni er fylgst með framvindu mála í hagkerfinu frá útgáfu Íslandsskýrslu McKinsey sem kom út árið 2012.

Í skýrslu Viðskiptaráðs kemur fram að vinnustundum hefur fjölgað á Íslandi sem og fjölda starfandi af heildarmannfjölda en slíkar breytingar eru litlar sem engar á hinum Norðurlöndunum. Þannig er atvinnustig á Íslandi 54,6%, sem er 13% yfir meðaltali samanburðarlanda, og vinnustundir á íbúa á ári eru 1.864 eða 20% yfir meðaltali.

Frosti Ólafsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, segir ljóst að ekki sé hægt að keyra áfram aukin lífsgæði með áframhaldandi aukningu vinnustunda. „Til lengri tíma má segja að þessi leið sé ekki möguleg öðruvísi heldur en að stækka vinnumarkaðinn hér heima verulega með því að fá hingað hlutfallslega meira af erlendu vinnuafli. En auðvitað ætti lykiláherslan að vera á aukinn virðisauka á bæði unna einingu og hvern starfsmann vegna þess að það er leiðin til þess að efla meðallífskjör í landinu,“ segir Frosti.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.