Íslendingar hafa kannski verið of hrokafullir í gegnum tíðina, að mati Katrínar Júlíusdóttur iðnaðarráðherra. Hún vonar að kreppan kenni landsmönnum að vera auðmjúkir.

Ráðherrann var viðmælandi breska sjónvarpsmannsins Joe Lynam en breska ríkisútvarpið (BBC) sýndi í gærkvöldi fréttaskýringu hans í þættinum Newsnight sem fjallaði um Ísland, kreppuna, eftirmála hennar og efnahagsbatann. Lynam ræddi við fjölmarga í þættinum, þar meðal annars við Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands, Ásdísi Bragadóttur, fyrrverandi bæjarstjóra í Garðabæ, og Jón Sigurðsson, forstjóra stoðtækjafyrirtækisins Össurar.

Lynam segir í þættinum marga hafa flutt af landi brott í kreppunni og hafi þeir sem eftir sitji bætt á sig tveimur til þremur störfum til að geta haldið í horfinu. Hann segir jafnframt veðurfar og erfiðar aðstæður hafa mótað Íslendinga og muni það einkenni líklega gera landsmönnum kleift að vinna sig út úr efnahagshruninu. Undir þetta tekur Ólafur Ragnar, sem bendir á að nýta megi frumkvöðlakraftinn, sem að vissu leyti kunni að hafa valdið hruninu, til að blása lífi í hagkerfið.

Þá segir forstjóri Össurar að kreppan hafi kennt landsmönnum að trúa ekki á bólur og gervihagkerfi. Það hafi ekki kunnað góðri lukku að stríða.

Þáttur Newsnight um Ísland