David Sullivan, sem í morgun eignaðist helmingshlut í breska knattspyrnufélaginu West Ham ásamt félaga sínum David Gold, var ómyrkur í máli gagnvart stjórnartíð Íslendinganna Björgólfs Guðmundssonar og Eggerts Magnússonar í viðtali við útvarpsstöð BBC í morgun.

Þar sagði hann að nýju eigendurnir ætluðu sér að vera heiðarlegir við aðdáendur félagsins „um bókhaldið, ójafnvægi leikmannahópsins og þau sturluðu laun sem íslensku eigendurnir greiddu út og hafa knésett félagið.“

Straumur seldi helming á rúmlega 10 milljarða

West Ham hefur verið í eigu CB Holding, eignarhaldsfélags í meirihlutaeigu Straums, síðan í júní 2009. Straumur var einn helsti lánadrottinn Hansa, félags Björgólfs Guðmundssonar sem keypti West Ham haustið 2006.

Sullivan og Gold kaupa 50 prósent hlut í West Ham á rúmlega 50 milljónir punda, 10,5 milljarða króna. Þeir munu í kjölfarið taka yfir stjórn félagsins og rekstur þess. CB Holding mun þó áfram eiga fulltrúa í stjórn þess.

Vilja flytja á Ólympíuleikvang og komast í meistaradeildina

Sullivan sagði við BBC í morgun að hann hyggist halda knattspyrnustjóra félagsins, Gianfranco Zola, og að félagið myndi kaupa nýja leikmenn í félagsskiptaglugganum sem er opin fram að næstu mánaðarmótum. Hann lýsti því auk þess yfir að hann myndi reyna að sannfæra bresk stjórnvöld um að leyfa West Ham að notast við Ólympíuleikvanginn sem verið er að byggja í Lundúnum um þessar mundir fyrir Ólympíuleikanna 2012 og að stefnan væri að koma West Ham í meistaradeildina á næstu sjö árum.