*

sunnudagur, 16. júní 2019
Innlent 26. maí 2019 11:02

Íslendingum býðst að kaupa

Skráningu Marel í kauphöllina í Amsterdam var flýtt og verða allt að 100 milljónir nýrra hluta boðnir út.

Ástgeir Ólafsson
Ásthildur Margrét Otharsdóttir, stjórnarformaður Marel.
Birgir Ísl. Gunnarsson

Stefnt er að því að skrá Marel í kauphöllina í Amsterdam fyrir lok annars ársfjórðungs. Stjórnarformaður félagsins segir að nýtt hlutafé muni styðja við áframhaldandi vöxt Marel.

Marel greindi frá því í vikunni að félagið hygði á almennt hlutafjárútboð og í kjölfarið skráningu í Euronext kauphöllina í Amsterdam á öðrum ársfjórðungi þessa árs þótt tímasetningin sé háð markaðsaðstæðum. Í útboðinu munu verða boðnir allt að 100 milljónir nýrra hluta sem samsvara um 15% af núverandi útistandandi hlutum félagsins. Skráningin í Amsterdam verður til viðbótar við skráningu félagsins í Nasdaq kauphöllina á Íslandi og er því um tvíhliða skráningu að ræða.

Ásthildur Margrét Otharsdóttir, stjórnarformaður Marel, segir að með tilkynningunni á mánudag hafi félagið í raun verið að staðfesta áður birtar áætlanir félagsins um hlutafjárútboð og skráningu á Euronext.

„Við teljum okkur einfaldlega vera tilbúin og stefnum að því að klára þetta fyrir lok annars ársfjórðungs,“ segir Ásthildur spurð hvers vegna félagið hafi ákveðið að fara í skráningu strax á yfirstandandi ársfjórðungi. „Það er mjög mikil vinna búin að eiga sér stað frá því að við tilkynntum að við værum að fara í þessa vegferð. Þetta eru mjög spennandi tímar fyrir Marel og algjörlega rökrétt skref í vegferð félagsins. Við höfum fengið afskaplega góðar viðtökur við tilkynningunni á mánudag og erum mjög ánægð með þann mikla áhuga sem við finnum í tengslum við skráninguna.“

Að sögn Ásthildar verður útboðið á nýjum hlutum bæði fyrir innlenda sem og erlenda fjárfesta. „Þetta er almennt útboð bæði á Íslandi og í Hollandi auk þess sem það verður lokað útboð til alþjóðlegra fagfjárfesta. Íslenskum fjárfestum munu standa hlutirnir til boða og það verður almenningsútboð með fullri útboðslýsingu."

Á morgun verður opinn fjárfestafundur í höfuðstöðvum Marel.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is