Þann 1. janúar 2015 voru landsmenn 329.100 og hafði fjölgað um 3.429 frá sama tíma árið 2014. Þetta jafngildir fjölgun landsmanna um 1%. Þetta kemur fram í nýjum tölum Hagstofu Íslands .

Konum og körlum fjölgaði sambærilega á árinu og voru karlar 1.272 fleiri en konur 1. janúar 2015. Mikil fólksfjölgun var á höfuðborgarsvæðinu en þar voru íbúar 2.530 fleiri 1. janúar 2015 en ári fyrr. Það jafngildir 1,2% fjölgun íbúa á einu ári. Hlutfallslega varð fólksfjölgunin hins vegar mest á Suðurnesjum, þar sem fjölgaði um 2,1%, eða 466 frá síðasta ári.

Fólksfækkun var á þremur landsvæðum, Norðurlandi vestra þar sem fækkaði um 108 manns, eða 1,4%, á Austurlandi en þar fækkaði um 28, eða 0,2% og á Vestfjörðum þar sem fækkaði um tvo eða 0,02%.