Sænska akademían ákvað nýverið að veita Kristni Jóhannessyni íslenskufræðingi og Gunnari D. Hansson ljóðskáldi sérstaka viðurkenningu fyrir ritstjórn þeirra á heildarútgáfu Íslendingasagna og þátta í nýrri sænski þýðingu sem Saga forlag gaf út á síðasta ári.

Hvor þeirra fær 100.000 sænskar krónur fyrir þessa viðurkenningu, eða rúmlega eina og hálfa milljón íslenskra króna. Segir í tilkynningu frá Sögu forlagi að þessi viðurkenning sé ánægjulegur vitnisburður um mikilvægi Íslendingasagna og stöðu þeirra í bókmenntum heimsins.

Kristinn Jóhannesson er Svarfdælingur að uppruna, lauk prófi í íslenskum fræðum frá Háskóla Íslands en hefur frá áttunda áratug síðustu aldar verið búsettur í Svíþjóð og kennt íslensku og íslenskar bókmenntir við háskólana í Helsingfors, Lundi og nú síðast í Gautaborg. Kristinn hefur um langt árabil verið einn öflugasti málsvari íslenskra bókmennta að fornu og nýju í Svíþjóð. Gunnar D. Hansson er meðal virtustu ljóðskálda Svía og bókmenntafræðingur að mennt. Hann hefur um árabil starfað í tengslum við háskólann í Gautaborg, verið öflugur þýðandi erlendra bókmennta á sænsku, ritstýrt margvíslegum útgáfum auk þess að senda frá sér ljóð og lausamál í eigin nafni.

Sænska þýðingin á Íslendingasögum og þáttum er ein þriggja nýrra heildarútgáfna sem Saga forlag gaf út árið 2014; hinar voru nýjar heildarútgáfur á dönsku og norsku. Allar hafa hinar nýju heildarútgáfur hlotið einróma lof gagnrýnenda og afar góðar viðtökur.