Ónafngreindur Íslendingur um fertugt stendur nú í málaferlum í Dubai. Íslendingurinn er ákærður fyrir að hafa notað falsað skjal í málaferlum sem hann áður stóð í þar á bæ. Þetta kemur fram í dagblaðinu The National í dag.

Aðdragandi málsins er sá að viðkomandi einstaklingur leitaði fyrir fjórum árum fjárfesta í Abu Dhabi til að hjálpa honum að koma fyrirtæki sínu á fóti. Fyrirtækið átti að framleiða og selja snekkjur. Íslendingurinn á að hafa hitt mögulegan fjárfesti sem bauðst til að veita fjármagn í fyrirtækið ef hann fengi fyrst afhenda smíðaða snekkju frá frá því.

Eftir að Íslendingurinn hafði afhent snekkjuna fékk hann þó enga fjármuni frá fjárfestinum. Hann fór með málið fyrir dóm þar sem hann bar sigur úr býtum. Fjárfestinum var gert að endurgreiða snekkjuna en hún er sögð tæplega 198 milljóna íslenskra króna virði.

Í kjölfar þess úrskurðar lögsótti fjárfestirinn Íslendinginn fyrir að hafa notað fölskuð skjöl í málflutningnum. Íslendingurinn neitar ásökununum en réttarhöldunum hefur nú verið frestað til 29. september næstkomandi. Þá hefur lögmaður Íslendingsins farið fram á að fá hann lausan gegn tryggingu, en meðal skilmála er að hann afhendi vegabréf sitt auk um 2.471.530 íslenskra króna í tryggingu.