„Þeir Íslendingar sem ég hef talað við eru ekki áhyggjufullir. Þeir líta á þetta sem rigningu og rok. En á móti erum við á einu af þéttbýlustu svæðum Bandaríkjanna. Það er búið að loka neðanjarðarlestarkerfinu og fjöldi manns sem býr við strandlengjuna þarf að yfirgefa heimili sín,“ segir Jón Emil Claessen Guðbrandsson, sem býr ásamt fjölskyldu sinni í Brooklyn í New York. Fimm íslenskar fjölskyldur búa í nágrenni við hann en öll búa þau sig undir að fellibylurinn Sandy komi að landi á austurströnd Bandaríkjanna síðdegis í dag eða í fyrramálið. Bandarískir fjölmiðlar segja mikla rigningu aðdraganda þess sem koma skal.

Fólk lokar að sér

Lýst hefur verið yfir hættuástandi vegna fellibylsins við stranlengjuna og hafa 400 þúsund manns sem þar búa verið beðin um að yfirgefa heimili sín. Fólk hefur jafnframt verið beðið um að reyna að sinna vinnu sinni heiman að frá sér. Hlutabréfamarkaðir í New York eru lokaðir í dag og talið líklegt að þeir verði líka lokaðir á morgun. Sömu sögu er að segja um verslanir. Þá eru almenningssamgöngur í lamasessi en fyrirtækið Amtrak hefur hætt bæði lestar- og rútusamgöngum við ströndina. Icelandair hefur sömuleiðis tilkynnt að flug til New York og Boston falli niður vegna veðurofsans.

Verra en Irene

Jón Emil segir í samtali við vb.is ekki hafa upplifað annan eins viðbúnað síðan fellibylurinn Irene gekk yfir í fyrra en bætir við að fólk sem býr við strandlengjuna sé áhyggjufyllra nú en þá en skemmdir af völdum veðurhamsins er meiri en þegar Irene gekk yfir.

„Þeir sem voru hérna í fyrra þegar Irene fór yfir segja að meira vatn muni flæða yfir núna enda er fullt tung og háfjara ofan í fellibylinn. Irene var öðruvísi að því leyti að þá var meiri lágkoma og þungt yfir. Nú er það vindurinn og háfjaran sem menn óttast,“ segir hann. Jón leggur áherslu á að hann og aðrir Íslendingar sem hann þekki í Brooklyn séu ekki í hættu þar sem hverfið liggi nokkuð hærra yfir sjávarmáli en aðrir borgarhlutar.

Hér má sjá frétt fréttastofunnar ABC um fellibylinn Sandy