Hinir forsjálu hafa farið verst út úr kreppunni á Kýpur, að sögn Ingu Karlsdóttur, sem búið hefur í höfuðborginni Nicosiu síðastliðin 30 ár en þar rekur hún veitingastað. Hún lýsir því í samtali við Morgunblaðið í dag hversu slæmt útlitið er; heimildir úttekta takmarkast við 300 evrur á dag, annar banki Kýpur gjaldþrota og fái fólk aðeins að taka út 40% innstæðna sinna. Því til viðbótar er búið að tæma lífeyrissjóðina og margar verslanir enn lokaðar.

Inga segist hafa fundið fyrir því síðustu árin að syrt hafi í álinn. Útgjöld ríkisins hafi aukist umfram innistæður og lán tekin til að stoppa í gatið og því orðið til misvægi í gjaldeyrismálum. Hún segir marga Kýpverja vilja hætta í evrusamstarfinu og taka kýpverska pundið upp á nýjan leik. Bankar voru opnaðir á nýjan leik á Kýpur á fimmtudag í síðustu viku en þeir höfðu verið lokaðir í um tvær vikur til að koma í veg fyrir bankaáhlaup.

Inga segir mann sinn vinna hjá bílaumboði og starfshlutfall hans hafa verið skert. Af þeim sökum sé hann að leita sér að starfi í öðru landi. Fleiri eru í hans sporum, að sögn Ingu.