Baldur Sigurðsson, íslenskur fjárfestir í Bretlandi, var kærður fyrir svokölluð kyndiklefasvik en var sýknaður fyrir breskum dómstólum um mitt ár 2010. Baldur er sá sem kom á sambandi milli „kyndiklefasvikarans“ Tomas Wilmot og tveggja sona hans fyrir Fjárvernd-Verðbréf en þeir voru hluthafar þar og ætluðu að fara með ráðandi hlut í félaginu en var hafnað af Fjármálaeftirlitinu á sínum tíma.

Seldu í verðlausum fyrirtækjum

Baldur var sýknaður fyrir dómstóli í Ipswich ásamt þremur öðrum en höfuðpaurarnir voru tveir og hlutu þeir dóma. Í dómnum um þessi meintu kyndiklefaviðskipti kemur fram nafn á íslensku félagi sem var notað í svikamyllunni, Toppurinn, en það var skráð í Grindavík. Önnur fyrirtæki voru t.d. COL systems og Osborn Group og svo fjögur önnur fyrirtæki sem voru notuð en ekki nafngreind í dómnum. Í fjársvikamálinu voru tveir dæmdir sekir, þrír sýknaðir, þ.a.m. Baldur. Þeim var gert að sök að selja hlutabréf í litlum fyrirtækjum sem höfðu litla eða enga starfsemi og voru verðlaus. Talið er að þeim hafi tekist að koma 80% gróðans undan.

Fjársvikin áttu sér stað frá apríl 2003 til nóvember 2006. Þá er einnig tekið fram í dómnum að þeir hafi notað Gordon Gekko sem nafn á skjalinu sem kláraði viðskiptin. Samtals námu svikin sjö milljónum punda. Talið er að tjón hvers einstaklings sem lét glepjast væri um 20 þúsund pund eða sem samsvarar 3,7 milljónum króna. Ekki finnast upplýsingar um starfsemi Baldurs í Bretlandi núna en samkvæmt ársreikningaskrá hafa öll félög tengd honum orðið gjaldþrota eða samtals 15 fyrirtæki.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.