Sigurður „Siggi“ Kristinsson verður nýr framkvæmdastjóri milljarða króna fjármögnunarsjóðs, AV AirFinance Limited, fyrir félög í flugiðnaði. Bloomberg greinir frá.

Sigurður hefur unnið erlendis allan sinn feril en hann var áður framkvæmdastjóri Volito Aviation Services AB sem hann átti jafnframt þátt í að stofna. Félagið hefur meðal annars veitt Goldman Sachs fjármögnun og ráðgjöf, auk annarra félaga.

Sjóðurinn er í eigu fjárfestingafélagsins Kohlberg Kravis Roberts & Co. (KKR) sem að tók nýverið yfir 800 milljón dollara, rúmlega 97 milljarða króna lánasafn CIT Group Inc. Lánasafnið telur yfir fimmtíu lán fyrir um 60 farþegaþotur. Áður hafði KKR samþykkt að kaupa fyrirtækið Atlantic Aviation fyrir um 4,5 milljarða Bandaríkjadollara.

KKR er meðal stærstu fyrirtækja heims og númer 316 á lista Fortune 500 yfir tekjuhæstu félög Bandaríkjanna og er metið á rúma 42 milljarða dollara. Heildartekjur félagsins á síðasta ári voru um 9,6 milljarðar dollara á síðasta ári og hagnaður þess um 2 milljarðar dollara.