Íslensk almannatengsl og alþjóðlega almannatengslafyrirtækið Weber Shandwick gengu í dag frá samstarfssamningi, segir í tilkynningu. Íslensk almannatengsl eru þar með samstarfsfyrirtæki Weber Shandwick á Íslandi (e. A Weber Shandwick Affiliate Company). Samningurinn opnar þannig íslenskum fyrirtækjum í útrás fjölmargar dyr þar sem þeim stendur nú til boða ráðgjöf í almannatengslum og markaðsmálum hjá fagfólki með þekkingu á þörfum íslenskra fyrirtækja sem og nýja markaðinum.

"Við erum ákaflega ánægð með samninginn. Með honum erum við orðin hlekkur í öflugustu almannatengslakeðju heims," segir Ómar R. Valdimarsson, framkvæmdastjóri Íslenskra almannatengsla. "Saga Weber Shandwick nær 85 ár aftur þegar auglýsingastofan og almannatengslafyrirtækið BSMG Worldwide var stofnað í Omaha árið 1921, þannig að óhætt er að segja að við fáum aðgang að mjög öflugum reynslubanka."

Frá stofnun hefur Weber Shandwick vaxið jafnt og þétt á öllum sínum mörkuðum og sameinaðist það meðal annars hinu breska Shandwick International um síðustu aldamót. Árið 2001 varð félagið til í sinni núverandi mynd og er í dag það almannatengslafyrirtæki sem hefur hlotið einna flestar viðurkenningar á sínu sviði. Móðurfélag Weber Shandwick, The Interpublic Group of Companies, er skráð í Kauphöllinni í New York (NYSE: IPG). Ekkert almannatengslafyrirtæki í heiminum er með jafn víðtækt net skrifstofa og samstarfsaðila og Weber Shandwick.

"Þetta gefur því íslenskum fyrirtækjum mikið forskot, þegar farið er inn á nýjan markað þar sem t.d. fjölmiðlaumhverfið er gjörólíkt því sem við þekkjum á Íslandi," segir Ómar og bætir við að meðal þess sem framvegis standi íslenskum fyrirtækjum til boða séu sérþróaðar lausnir Weber Shandwick, sem hafa verið margprófaðar á fjölmörgum mismunandi mörkuðum. Sem dæmi má nefna "niðurstöðustjórnun", þar sem fléttast saman greining á síbreytilegum fjölmiðlamarkaði, fyrirfram ákveðnar lausnir, sem eru líklegar til árangurs, skilgreining á áheyrendahópi og mælanlegar niðurstöður.