Framleiðsla er hafin á álpönnum í verksmiðju LOOK Cookware Ísland ehf. í Rúmeníu. Að sögn Ingimundar Helgasonar, stjórnarformanns félagsins, horfir ágætlega með reksturinn eftir nokkra byrjunarerfiðleika við að koma framleiðslunni af stað. Verksmiðjan hefur náð sölusamningi sem tryggir ákveðna grunnstarfsemi hjá fyrirtækinu næstu fimm ár og sagði Ingimundur að viðbrögð á nýlegri sýningu hefðu aukið mönnum bjartsýni.

Verksmiðjan í Rúmeníu er í grunninn sú starfsemi sem var á vegum Alpan hf. á Eyrarbakka um árabil. Eftir langvarandi erfiðleika í rekstri hér á Íslandi var ákveðið í lok árs 2005 að færa verksmiðjuna til Rúmeníu en samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er framleiðslukostnaðurinn um það bil helmingi lægri þar en á Íslandi og í Danmörku, en þar í landi er helsti samkeppnisaðili verksmiðjunnar. Einnig skipti miklu máli varðandi flutninginn út að ekki fékkst starfsfólk til starfa á Eyrarbakka. Þá er verksmiðjan í Rúmeníu nær mörkuðum og hráefni.

Ingimundur sagði að það hefði verið kostnaðarfrekt að fara með verksmiðjuna út en nú horfði ágætlega með rekstur hennar. Verksmiðjan er í 4.800 fermetra húsnæði í borginni Targoviste og sagði Ingimundur að hún væri miklu betur búin en verksmiðjan á Eyrarbakka. Þannig væri skipulag og tækjakostur mun betra sem yki mönnum bjartsýni á reksturinn. "Við erum að þjálfa starfsfólk og því fylgja ákveðnir byrjunarörðugleikar. Öll aðstaða starfsfólks er miklu betri en hún var nokkurn tímann hér heima. Við erum í húsnæði sem er búið að endurnýja frá grunni og við erum vonandi búnir að búa þessu þann farveg að þetta geti gengið," sagði Ingimundur en hann benti á að næstu mánuðir væru mikilvægir fyrir framhaldið.