Auglýsingastofan Hvíta húsið hefur selt auglýsingaherferð sína, „Vodafone RED“, sem hún gerði fyrir Vodafone á Íslandi til Vodafone í Úkraínu.

Auglýsingin, sem var framleidd af SagaFilm, var leikstýrt af Guðjóni Jónssyni en Ari Magg sá um ljósmyndir og fór hún fyrst í loftið á Íslandi í mars 2014.

Herferðin verður því birt í úkraínskum fjölmiðlum á næstunni, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá auglýsingastofunni, en úkraínska auglýsingastofan Tabasco hafði milligöngu um leyfi til birtinga þar í landi.

Einnig verið notuð í Færeyjum

„Auglýsingaherferðin hefur vakið athygli utan landsteinnna og hlaut hún verðlaun Vodafone Global sem besta markaðsherferðin og innleiðing á RED vörulínunni,“ segir í tilkynningu frá auglýsingastofunni.

„Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þessi auglýsingaherferðin er nýtt erlendis því Vodafone í Færeyjum hefur einnig notað hana.

Þá hafa aðildarfyrirtæki Vodafone í fleiri löndum, bæði í Evrópu og Afríku, sýnt áhuga á nota herferðina á sínum markaðssvæðum.

Gunnar Þór Arnarson framkvæmdastjóri hönnunarsviðs Hvíta hússins segir að það sé mikil viðurkenning fyrir Hvíta húsið að verk auglýsingastofunnar séu metin til jafns við verk stærstu auglýsingastofa í heimi sem vinni jafnan fyrir aðildarfyrirtæki Vodafone um allan heim.“