Aðspurður um rekstur alþjóðlegs fyrirtækis hér landi segir Emil Grímsson, stjórnarformaður Arctic Trucks að það geti oft reynst erfitt en hafi þó sína kosti og galla.

Emil fer í viðtali við Viðskiptablaðið yfir rekstur og stöðu fyrirtækisins en starfsemi Arctic Trucks er nú orðin mun meiri erlendis en hér á landi og í raun fer hún að mestu leyti fram utan Íslands. Þó gerir Emil ráð fyrir að höfuðstöðvar Arctic Trucks verði áfram á Íslandi.

„Við þurfum að eyða miklum tíma í ferðalög vegna fjarlægðar okkar auk þess sem gjaldmiðillinn veldur oft töluverðum erfiðleikum,“ segir Emil.

„En Íslendingar eru mjög vandvirkir og kerfið hér hefur verið mjög gott, þótt það sé lamað í augnablikinu. Mér finnst margt gott hafa fæðst í þessu ástandi sem nú ríkir. Mér finnst viljinn til að berjast og til framkvæmda það sem þarf meira en áður var. Það er baráttuhugur í vinnandi Íslendingum og menn skilja að aðstæðurnar eru erfiðar. Flestir eru sáttir við að þurfa að leggja meira á sig.“

Aðspurður nánar um gjaldeyrinn segir Emil að Arctic Trucks hafi fengið leyfi til að taka ákveðið fjármagn erlendis í verkefni þar. Þó tekur Emil fram að gengi íslensku krónunnar nú komi fyrirtækinu til góða.

„Við fáum meira út úr bílunum og vinnunni en áður vegna gengisins,“ segir Emil.

„Starfsmenn okkar eru stundum erlendis í heilan mánuð í senn og við erum iðulega með nokkra mánuði á ári í útseldri vinnu erlendis. Það gefur mjög vel af sér um þessar mundir.“

Emil segir að fyrirtækið hafi leitað eftir nýjum fjárfestum erlendis en erfitt sé fyrir íslensk fyrirtæki að fara út í slíkt um þessar mundir.

„Við vorum beðnir um að leggja fram bankaábyrgð vegna stórs erlends verkefnis sem við gerðum tilboð í og okkur varð fljótt ljóst að við þyrftum að leita til erlends banka með slíkt,“ segir Emil.

„Ég tel samt að móðurfélagið eigi að vera íslenskt fyrirtæki, en í mörgum tilvikum störfum við undir merkjum starfsemi okkar á öðrum mörkuðum eins og í Noregi.“

_____________________________

Nánar er rætt við Emil í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .