Blaðamaður Sunday Times, Peter Shearlock, segir í grein í blaðinu að það gæti reynst erfitt fyrir Baug að gera kauptilboð í bresku verslunarkeðjuna Woolworths vegna yfirvofandi bankakreppu á Íslandi.

Baugur á 10% hlut í keðjunni og félagið hefur margoft verið orðað við hugsanlega yfirtöku. Hins vegar segja heimildarmenn Viðskiptablaðsins að Baugur muni ekki reyna að taka fyrirtækið yfir að svo stöddu. Afkoma félagsins hefur verið undir væntingum greiningaraðila.

Sérfræðingar benda á að Baugur hafi unnið mikið með erlendum bönkum og vísa því á bug að félagið eigi erfitt með að fjármagna yfirtökur.

Innlendir greiningaraðilar hafa einnig neitað því að íslensk bankakreppa sé yfirvofandi, og benda á að vanþekking á íslensku bönkunum hafi leitt til neikvæðra greininga nýverið.