Katla Guðrún Jónasdóttir, fyrrverandi kona og barnsmóðir breska fjárfestisins Kevin Stanford, hefur verið ákærð fyrir að hafa vantalið tekjur sínar um tæpar 117 milljónir króna og að hafa stungið rúmum 42 milljónum króna undan skatti.

Fram kemur í ákæru embættis sérstaks saksóknara á hendur Kötlu að hún hafi staðið skil á efnislega röngum skattframtölum fyrir gjaldárin 2007 og 2008 vegna tekjuáranna 2006 og 2008 með því að hafa látið undir höfuð leggjast að telja fram greiðslu upp á 40 milljónir króna árið 2007 og fasteign að Ingólfsstræti upp á 77 milljónir króna árið eftir. Í ákærunni segir að þetta hafi átt að flokkast sem gjafir.

Í ákærunni segir að brotið sé meiri háttar brota á skattalögum. Ákæran var gefin út 17. september síðastliðinn og verður málið þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur á morgun.

Fjárfesti með Íslendingum

Kevin Stanford stofnaði tískuvörukeðjuna Karen Millen ásamt þáverandi eiginkonu sinni Karen Millen árið 1981. Stanford seldi Baugi hlut sinn í Karen Millen en félagið Mosaic Fashions eignaðist verslunina árið 2004. Hann fjárfesti nokkuð í íslenskum félögum, m.a. í FL Group og Baugi Group. Stanford var jafnframt einn af stærstu hluthöfum Mosaic Fashions.

Mosaic Fashions fór í greiðslustöðvun í mars árið 2009. Baugur Group átti þá 39% hlut í félaginu. Skilanefnd Kaupþings tók svo yfir 90% hlut í félaginu.

Fram kom í vikuritinu Hér & Nú árið 2006 að Katla Guðrún og Stanford hafi keypt fasteignina við Ingólfsstræti árið 2005.