*

þriðjudagur, 19. október 2021
Innlent 30. júlí 2008 16:50

Íslensk erfðagreining finnur erfðaþátt geðklofa

Ritstjórn

Vísindamenn Íslenskrar erfðagreiningar hafa í samstarfi við Landspítalann, Evrópusambandsstyrkta rannsóknarhópinn SGENE og aðra samstarfsaðila greint í vísindatímaritinu Naturei frá úrfellingum sem fundist hafa í erfðamengi mannsins sem auka áhættu þeirra sem þær bera á að fá geðklofa.

Um það bil 1 af hverjum 5.000 börnum ber í sér slíkar úrfellingar, sem fimmtánfalda líkur á að greinast með geðklofa. Úrfellingarnar geta erfst frá foreldrum til barna en tilviljun ræður því í hvaða einstaklingum það gerist.

Rannsóknirnar eru þær fyrstu sinnar tegundar þar sem sýnt er fram á slík tengsl milli geðsjúkdóma og úrfellinga í erfðamengi í stóru þýði. Þar sem þessir breytileikar margfalda líkur á því að greinast með geðklofa hjá þeim sem þá bera getur uppgötvunin orðið fyrsta skrefið að þróun erfðagreiningarprófa, til notkunar samhliða hefðbundinni greiningu. Vonast er til að þessar uppgötvanir muni því leiða til þess að hægt verði að greina einstaklinga með geðklofa fyrr en ella og hefja meðferð fyrr.