Íslensk erfðagreining greindi frá því í gær að fyrirtækið hafi ákveðið að gera hlé á þriðja fasa prófana á tilraunalyfinu DG031 (veliflapon) meðal bandarískra hjartasjúklinga. Við reglubundnar leysnimælingar hefur komið í ljós að tíminn sem það tekur lyfið að losna úr töflunum hefur lengst að því er segir í tilkynningu félagsins.

Þar kemur einnig fram að ekkert bendir til að þetta hafi haft áhrif á upptöku lyfsins hjá þátttakendum, né á öryggi lyfsins. Stjórnendur rannsóknarinnar telja þó mögulegt að þetta gæti að óbreyttu leitt til þess að töflurnar losuðu lyfið of hægt til að full virkni kæmi fram í prófununum. Íslensk erfðagreining hefur kynnt málið fyrir Bandaríska matvæla- og lyfjaeftirlitinu og vinnur nú að endurbótum á framleiðsluferli taflnanna.

?Hagsmunir okkar og hjartasjúklinga fara saman í því að tryggja að framkvæmd þessara prófana verði eins og best verður á kosið og við verðum því að fresta frekari prófunum meðan við leysum þetta vandamál. Við erum brautryðjendur í þróun lyfja sem hafa áhrif á mikilvægan áhættuþátt hjartaáfalla. Við munum áfram vinna af krafti að þróun greiningarprófs og annars lyfs sem beinist að þessum áhættuþætti, meðan við endurbætum framleiðsluferlið og framleiðum nýjar töflur fyrir áframhaldandi prófanir á DG031," sagði Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, í tilkynningu félagsins.

Þar kemur einnig fram að vísindamenn Íslenskrar erfðagreiningar hafa fundið breytileika í tveimur erfðavísum sem leiða til aukinnar hættu á hjartaáföllum. Rannsóknir fyrirtækisins benda til að þeir sem bera áhættuarfgerð þessara erfðavísa séu í aukinni hættu á að fá hjartaáföll vegna aukinnar myndunar á mikilvægum bólguvaka, svokölluðu leukotriene B4. Tilraunalyfin DG031 og DG051 sem Íslensk erfðagreining er með í þróun, er ætlað að draga úr myndun þessa bólguvaka og með því er vonast til að þau minnki hættu á hjartaáföllum. Fyrirtækið vinnur einnig að þróun greiningarprófs til að greina áhættuarfgerðir þessara erfðavísa.