Íslensk erfðagreining greindi frá því í dag að hafnar séu lyfjaprófanir af öðrum fasa á nýju tilraunalyfi fyrirtækisins við astma og að fyrsti sjúklingurinn hafi þegar hafið lyfjatöku. Lyfið hefur áhrif á starfsemi ensíms sem erfðarannsóknir Íslenskrar erfðagreiningar hafa sýnt að tengist líffræðilegum orsökum astma. Lyfið var upphaflega þróað við öðrum sjúkdómi af öðru lyfjafyrirtæki.

Um 160 íslenskir astmasjúklingar með áhættuarfgerð taka þátt í lyfjaprófununum. Markmið þeirra er að kanna hvort lyfið sé öruggt og vel þolað af sjúklingum og áhrif mismunandi skammtastærða á lungnastarfsemi og bólgur í öndunarvegi. Reiknað er með að niðurstöður lyfjaprófananna muni liggja fyrir í haust.

?Við erum nú virkilega farin að sjá ávöxt erfðarannsókna okkar í þróun á nýjum lyfjum gegn alvarlegustu heilbrigðisvandamálum samtímans. Á innan við einu ári höfum við hafið klínískar lyfjaprófanir í þremur mikilvægum sjúkdómum: hjartaáfalli, æðakölkun og nú astma."

?Astmi er algengasti langvinni sjúkdómur vestrænna samfélaga og tíðni hans hefur verið að aukast mjög hratt. Það verður spennandi að sjá hvort niðurstöður þessara prófana verða í samræmi við væntingar okkar og lyfið minnki bólgur í öndunarvegi astmasjúklinga með sértækari hætti en þau steralyf sem í dag eru helsta meðferðin við sjúkdómnum," sagði Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar í tilkynningu fyrirtækisins.

Þátttakendum í lyfjaprófununum verður skipt í fjóra jafnstóra hópa og munu þrír þeirra fá misstóra skammta af lyfinu en sá fjórði fær lyfleysu til viðmiðunar. Hver þátttakandi mun taka lyf eða lyfleysu í átta vikur. Prófanirnar verða slembiraðaðar og tvíblindar sem felur í sér að þátttakendum verður raðað í meðferðarhópa með tilviljanakenndum hætti og hvorki þátttakendur né stjórnendur rannsóknanna munu vita fyrirfram hvaða meðferðarflokki hver þátttakandi tilheyrir. Þátttakendur munu gangast undir öndunarmælingar, mældir verða bólguþættir í útöndunarlofti og munnvatni og viðbrögð öndunarvegs við áreiti verða metin með auðreytniprófi.

Astmi er langvinnur bólgusjúkdómur í lungum og öndunarfærum. Hann er algengasti langvinni sjúkdómurinn í börnum og ungu fólki og tíðni hans er á bilinu 10-30% í iðnvæddum löndum. Astmaköst orsakast af óeðlilegu og ýktu svari ónæmiskerfisins við utanaðkomandi áreiti, svo sem frjókornum, ryki, tóbaksreyk eða veirum. Hjá sumum sjúklingum felast slík köst í tiltölulega mildum hósta en í alvarlegustu sjúkdómstilfellum geta astmaköst verið lífshættuleg því öndunarvegur lokast nær alveg. Virkasta meðferðin gegn astma í dag felst í notkun steralyfja. Þau geta hins vegar valdið alvarlegum aukaverkunum, einkum ef þau eru notuð í langan tíma. Eitt helsta markmið nýrra meðferðarúrræða við astma hefur því verið að finna leiðir til að minnka bólgur í öndunarvegi án þess að nota steralyf.