Íslensk erfðagreining ehf. bókfærði 8,2 milljóna dollara tap fyrir rekstrarárið 2012 samkvæmt ársreikningi félagsins. Upphæðin samsvarar um milljarði íslenskra króna. Rekstrarniðurstaðan er þó talsvert betri en árið 2011 þegar félagið skilaði tæplega 14 milljóna dollara tapi.

Rekstrarekjur Íslenskrar erfðagreiningar jukust um 1,36 milljónir dollara og voru rúmlega 10 milljónir dollara á síðasta ári en á móti kemur að aðrar tekjur lækkuðu um tæplega hálfa milljón á milli ára. Stærsti hluti rekstrartekna félagsins kemur frá rannsóknarstyrkjum sem jukust talsvert á milli ára.

Árið 2011 námu rannsóknarstyrkir um 3,8 milljónum dollara en voru um 6,3 miljónir dollara á síðasta ári. Samtals fékk félagið því um 760 milljónir íslenskra króna í rannsóknarstyrki á árinu. Þrátt fyrir umrætt rekstrartap og neikvætt eigið fé upp á rúmlega 59 milljónir dollara þá verður að líta til þess að stærsti hluti skulda fyrirtækisins, 47,5 milljónir dollara af 72 milljóna dollara skuldum, er við Amgen, eiganda fyrirtækisins.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér.