Íslensk erfðagreining hefur gefið út skuldabréf fyrir tæpa 2,6 milljarða króna. Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir í samtali við Viðskiptablaðið að skuldabréfin séu gefin út í tengslum við gjaldeyrisútboð Seðlabankans.

„Við höfum verið að kaupa ný raðgreiningartæki og þetta er liður í þeim kaupum. Þetta hefur verið
aðferð til að kaupa ódýrar krónur,“ segir Kári. Hann bætir við að gjaldeyrishöft í samtengdum heimi árið 2014 búi til mikinn  óstöðugleika  sem fyrirtæki verði að reyna að bregðast við, meðal annars með fjárfestingarleið Seðlabankans.