Íslensk erfðagreining hagnaðist um 3,99 milljónir dollara í fyrra, eða jafnvirði um 497 milljóna króna. Hagnaðurinn er talsvert minni en árið 2014, þegar hann nam um 11 milljónum dollara.

Tekjur Íslenskrar erfðagreiningar jukust hins vegar um 32% milli ára og námu 77,7 milljónum dollara, jafnvirði um 10 milljarða króna. Stærsti hluti teknanna er vegna þjónustu við Amgen, móðurfélag Íslenskrar erfðagreiningar. Auk þess fékk fyrirtækið um 6,5 milljónir dollara, jafnvirði 800 milljóna króna, í rannsóknarstyrki.

Gaf 800 milljónir

Athygli vekur að Íslensk erfðagreining gaf sjálfeignarstofnuninni Gjöf til Þjóðar 6,5 milljónir dollara á síðasta ári, jafnvirði 800 milljóna króna. Markmið stofnunarinnar er að fjármagna kaup á jáeindaskanna fyrir Landspítalann og nýja byggingu utan um hann. Ef ekki væri fyrir stofnframlag Gjafar til Þjóðar væri hagnaður Íslenskrar erfðagreiningar 10,5 milljónir dollara.

Eigið fé Íslenskrar erfðagreiningar var neikvætt um 37 milljónir dollara í lok síðasta árs, en á sama tíma voru eignir félagsins metnar á 68 milljónir dollara. Félagið gaf út nýtt hlutafé fyrir 6,5 milljónir dollara á árinu, sem er sama upphæð og lögð var í Gjöf tIl Þjóðar.