Febrúarmánuður hefur verið viðburðaríkur hjá íslenskum fatahönnuðum sem hafa margir lagt land undir fót og kynnt hönnun sína erlendis. Margir af bestu og efnilegustu fatahönnuðum landsins tóku þátt í fjórum, stórum sýningum og fatakaupstefnum í Berlín, Kaupmannahöfn og Tókýó.

Með þeirra þátttöku hefur íslenskri hátísku verið komið í sviðsljósið og hafa hönnuðurinir hvarvetna fengið verðskuldaða athygli. Margir hönnuðana náðu að selja vörur sínar til erlendra tískuverslana og mynda nauðsynleg tengsl við kaupendur ytra.

Útflutningsráð Íslands hafði milligöngu um að skipuleggja þátttöku í sýningunum og ljóst er að mikil trú ríkir á íslenska hönnun þar á bæ.

Berglind Steindórsdóttir, forstöðumaður sýningarsviðs Útflutningsráðs, segir í fréttatilkynningu sem ráðið sendi frá sér að mikill kraftur sé í íslenskri fatahönnun um þessar mundir og mikið af nýjum og ungum hönnuðum að koma fram á sjónarsviðið. „Mörg þessara nýju fyrirtækja hafa ekki unnið saman áður en ég er viss um að samstarf eins og það, sem íslensku þátttakendurnir höfðu með sér á sýningunni í Tókýó, er mjög vænlegt til árangurs. Þetta er kjörinn vettvangur til þess að skiptast á skoðunum og þekkingu og fyrirtækin geta hæglega stutt hvert annað í markaðssetningunni,“ segir í tilkynningunni.

Nánar er fjallað um málið í helgarblaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .