„Nokkur aukning hefur orðið á fjölda íslenskra hönnunarskráninga frá árinu 2009 en þó eru einungis um fimm skráningar fyrir íslenskan fatnað á ári. Þetta segir Borghildur Erlingsdóttir, forstjóri Einkaleyfastofunnar, sem segir heildarfjölda skráninga á hönnun hafa aukist talsvert eftir að alþjóðlegur samningur um skráningu hönnunar tók gildi hér á landi. „Hann gerir umsækjendum kleift að sækja um skráningu í fleiri en einu ríki í einni umsókn. Á síðustu fimm árum hafa að jafnaði um 60 íslensk vörumerki verið skráð fyrir fatnað á ári hér á landi á móti um það bil 350 erlendum vörumerkjum sem skráð hafa verið árlega fyrir fatnaði hér á landi á sama tíma.“

Borghildur segir það einfalt ferli að sækja um skráningu hönnunar hjá Einkaleyfastofunni. „Það sem skiptir mestu máli er að hafa góðar myndir með umsókninni. Oft er betra að hafa fleiri myndir til að sýna hönnunina frá mismunandi sjónarhornum því hönnunarverndin tekur einungis til útlits hönnunarinnar en ekki virkni hennar. Þættir eins og efni og áferð geta hins vegar haft áhrif á vernd hönnunar.

Nánar er fjallað um málið í blaðinu Tíska sem fylgdi Viðskiptablaðinu síðastliðinn fimmtudag. Áskrifendur geta nálgast tölublaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð .