OMX Nordic Exchange  mun í dag og á morgun vera með kynningu á skráðum félögum í New York .

Alls verða 33 félög sem skráð eru í kauphöllum OMX kynnt  þar af íslensku félögin Exista, Glitnir og Össur og  að auki mun  Þórður Friðjónsson, forstjóri OMX Nordic Exchange á Íslandi halda erindi um íslenskt efnahagslíf og íslenska markaðinn. Þá mun hann varpa ljósi á gríðarlegan vöxt íslenska markaðarins og fjalla um þær breytingar sem orðið hafa á síðustu árum og þátttökuna íslensku kauphallarinnar í OMX.

"Tilgangurinn með þessari ferð til New York er að auka sýnileika norrænu félaganna og vekja áhuga þarstaddra fjárfesta á þeim félögum sem skráð eru á OMX mörkuðunum," segir í tilkynningu frá Kauphöllinni.

Á kynningunni verður sérstök áhersla verður lögð á félög í heilbrigðis-, neyslu-, nauðsynja- og fjármálageira. Einnig verður athyglinni beint að íslenska markaðnum en þetta er í fyrsta sinn sem íslensk félög taka þátt í sameiginlegri kynningu af þessu tagi eftir sameininguna við OMX.

"OMX Nordic Exchange á Íslandi telur mikilvægt fyrir íslenska markaðinn að skráð félög fái þau tækifæri sem önnur félög innan OMX kauphallasamstæðunnar fá til að kynna sig og sína stefnu. Fyrsta skrefið til að laða að erlenda fjárfesta er að vekja áhuga þeirra. Kynningar sem þessar eru góður vettvangur fyrir íslenska aðila til slíks.," segir í tilkynningu Kauphallarinnar OMX á Íslandi.