Samherji hf. hefur gefið út ársreikning fyrir síðasta ár þar sem veltutölur koma fram, en við lestur hans verður að hafa í huga að um 55% af starfsemi fyrirtækisins eru erlendis, en félög samstæðunnar starfa í ellefu löndum. Samherjasamstæðan velti samtals um 90 milljörðum krónum í fyrra, samanborið við 80 milljarða árið 2011 og hagnaður félagsins nam 15,7 milljörðum króna. Eignir samstæðunnar námu 123 milljörðum króna í árslok 2012, bókfært eigið fé nam 54,4 milljörðum króna og eiginfjárhlutfallið var 44,3%.

Samanlagðar eignir Samherja Ísland og ÚA, dótturfélaga Samherja hf., námu 40,3 milljörðum króna, sem er um 33% af heildareignum samstæðunnar, hagnaður fyrirtækjanna tveggja nam 5,6 milljörðum, sem er um 35% af hagnaði samstæðunnar og rekstrarhagnaður þeirra var um 7,7 milljarðar sem er um 36% af rekstrarhagnaði samstæðunnar. Skuldir fyrirtækjanna tveggja námu aftur á móti 32,3 milljörðum, sem er um 47% af heildarskuldum samstæðunnar og eigið fé fyrirtækjanna nam 14,8 milljörðum, eða um 27% af eigin fé samstæðunnar. Íslensku félögin tvö samsvara því um þriðjungi samstæðunnar þegar kemur að eignum, rekstrarhagnaði og afkomu fyrir árið 2012, en eru hlutfallslega skuldsettari en erlendu félögin í Samherjasamstæðunni.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .