Íslenskir fjárfestar verða fyrst um sinn lítið varir við sameiningu Kauphallar Íslands við OMX kauphöllina nema í formi nýs útlits á merki Kauphallarinnar og nýrri heimasíðu, segir greiningardeild Landsbankans.

Við upphaf næsta árs verður Kauphöll Íslands innlimuð í OMX kauphöllina, en OMX Group keypti Kauphöll Íslands í september síðastliðnum.

?Fyrir lok fyrsta ársfjórðungs verða hins vegar nokkrar breytingar en þá munu íslensku félögin meðal annars verða hluti af norrænum vísitölum. Það ætti að auka sýnileika íslenskra hlutabréfa og hugsanlega auka áhuga erlendra fjárfesta á íslenskum hlutabréfamarkaði.

Sem dæmi má nefna að mögulegt er að Kaupþing banki verð hluti af Nordic 40 vísitölunni í júlí 2007, en vísitalan hefur að geyma stærstu og veltumestu félög í OMX kauphöllinni,? segir greiningardeildin.

Mörg íslensk fyrirtæki í stærsta flokki

Það eru skráð um 580 fyrirtæki í OMX kauphöllina.. ?Kauphöllinni er skipt upp í þrjá flokka eftir stærð fyrirtækja. Um 120 fyrirtæki falla í stærsta flokkinn, "Large Cap", en það eru fyrirtæki að markaðsvirði meira en einn milljarð evra (92 milljarðar króna). Átta íslensk félög falla í þann flokk og að auki OMX, sem nú er skráð í Kauphöllina.

Óvenjuhátt hlutfall fyrirtækja í Kauphöll Íslands fellur undir stærsta flokkinn, eða 39% miðað við 21% í OMX kauphöllinni. Á móti er aðeins 30% íslensku fyrirtækjanna í minnsta flokknum, "Small Cap", en 49% í OMX kauphöllinni,? segir greiningardeildin.

Hún segir að OMX kauphöllinni sé einnig skipt niður í tíu atvinnugreinaflokka, en fjölmennustu atvinnugreinaflokkarnir eru iðnaður, fjármálaþjónusta og upplýsingatækni. ?Kauphöllin er leiðandi í upplýsingatækni í heiminum en bæði Ericsson og Nokia eru skráð í kauphöllina. Þá er kauphöllin einnig stór á sviði pappírsiðnaðar og tískuiðnaðar (e. fashion),? segir greiningardeildin.

Stefnt á samnorræna kauphöll

OMX Group rekur kauphallirnar í Stokkhólmi, Kaupmannahöfn, Helsinki, Tallin, Riga og Vilnius. Auk Reykjavíkur eftir kaupin á Kauphöll Íslands.

?Markmið OMX er að skapa eina samnorrænna kauphöll með aðild allra norrænu landanna. Eins og staðan er í dag þá stendur Kauphöllin í Osló enn fyrir utan samstarfið, en OMX á 10% í Kauphöllinni í Osló. Ekki er samstaða á meðal norskra fyrirtækja um hvort það muni gagnast þeim að verða hluti af OMX kauphöllinni í ljósi sérstöðu þeirra innan olíutengds iðnaðar,? segir greiningardeildin,