Íslensk fjárfesting ehf. hefur keypt meirihluta í ferðaskrifstofukeðjunni Kilroy Travels International A/S sem rekur 25 skrifstofur á Norðurlöndum og í Hollandi. Gengið var frá kaupsamningi í Kaupmannahöfn í dag segir í fréttatilkynningu.

Aðrir eigendur eru framkvæmdastjóri félagsins, lykilstjórnendur og finnska fjárfestingafélagið HYY Group, fyrrverandi aðaleigandi félagsins. Stjórnendateymi Kilroy verður óbreytt eftir kaupin. Kilroy velti ríflega 12 milljörðum króna á síðasta ári og starfsmenn eru um 300. Íslensk fjárfesting ehf. er fjárfestingafélag í eigu Arnars Þórissonar og Þóris Kjartanssonar.

Í tilkynningu kemur fram að Kilroy hefur sterka stöðu á ferðaþjónustumarkaði á Norðurlöndum og í Hollandi og er leiðandi á Norðurlöndunum í sölu einstaklingsferða og hópferða fyrir ungt fólk og stúdenta. Félagið selur ferðir undir fimm vörumerkjum og er leiðandi í sölu á skíðaferðum í Danmörku undir merkjum Team Benns. Kilroy hefur náð góðri fótfestu á Netinu en söluaukning um Netið nam 50% á síðasta ári sem er tvöfalt meira en sem nemur almennum vexti markaðarins.

Á hluthafafundi í Kaupmannahöfn í dag var Arnar Þórisson kjörinn stjórnarformaður Kilroy. Í tilkynningunni segir að Arnar þekki vel til félagsins en hann var meðal stjórnenda þess til nokkurra ára. Hann segir að það sé í takt við fjárfestingastefnu Íslenskrar fjárfestingar að hasla sér völl á ferðamarkaðnum. ?Við höfum mikla þekkingu á þessum geira og trúum að það séu mikil vaxtartækifæri á ferðaþjónustumarkaði í Norður-Evrópu. Kilroy er mjög sterkt vörumerki á sínu markaðssvæði og hefur á að skipa mjög hæfum og reyndum stjórnendum,? segir Arnar í tilkynningunni.

Claus Hejlesen, framkvæmdastjóri Kilroy, er ánægður með nýskipan eignarhalds á félaginu. ?Það er mikill hugur meðal stjórnenda sem munu halda áfram að styrkja stöðu Kilroy sem einnar öflugustu ferðaskrifstofu á Norðurlöndum auk þess að huga að nýjum landvinningum.?

Eftir kaupin á Íslensk fjárfesting 53% hlut í Kilroy með kauprétt á 20% til viðbótar. Straumur-Burðarás Fjárfestingabanki var ráðgjafi kaupanda og fjármagnaði kaupin að hluta. Kaupverð er ekki gefið upp.

Ferðaskrifstofukeðjan Kilroy á rætur að rekja til ársins 1946 þegar samtök stúdenta á Norðurlöndum stofnuðu ferðaskrifstofur. Kilroy í núverandi mynd varð formlega til árið 1991. Nafnið Kilroy má rekja til ungs manns, James Kilroy, sem vann við höfnina í Boston á 5. áratug síðustu aldar. Hann tók upp á því að merkja kassa, sem verið var að lesta um borð í skip, með áletruninni ?Kilroy was here?. Varð þessi áletrun fljótt heimsþekkt enda lesin á áfangastöðum um allan heim.