Stórsýningin Verk og vit 2006 verður haldin í nýju Íþrótta- og sýningahöllinni í Laugardal dagana 16.-19. mars 2006, að því er fram kemur hjá aðstandendum sýningarinnar. Á sýningunni verður megináhersla lögð á fagmennsku, aukna þekkingu og tækninýjungar í byggingariðnaði og mannvirkjagerð. Mjög örar framfarir hafa orðið í þessum greinum undanfarin ár og veltuaukning hefur verið nær stöðug í íslenskum byggingariðnaði frá árinu 1998. Veltan var ríflega 116 milljarðar króna árið 2004, sem er ríflega 23 milljarða króna aukning frá árinu á undan.

Á sýningunni verða áhugaverðar nýjungar í íslenskri framleiðslu kynntar auk véla, tækja, hönnunar, ráðgjafar og þjónustu sem ýmis fyrirtæki bjóða. Þá munu skipulagsmál sveitarfélaga skipa sérstakan sess þar sem þróun, einstök verkefni og framtíðarsýn verða kynnt. Í tengslum við sýninguna verða haldnar ráðstefnur og málþing þar sem m.a. verður fjallað um greiningu fasteignamarkaðarins, skipulagsmál, fjárfestingar og fjármögnun smárra sem stórra verkefna.

Sýningin Verk og vit 2006, sem kynnt er sem Construct North 2006 erlendis, er kjörinn vettvangur fyrir þátttakendur til að kynna vörur sínar og þjónustu, efla viðskiptasambönd og stofna til nýrra jafnframt því að byggja upp jákvæða ímynd með fræðslu og fróðleik, að því er fram kemur í tilkynningunni.

Framkvæmd sýningarinnar er í höndum AP sýninga, sem er í eigu AP almannatengsla ehf. Samstarfsaðilar við sýninguna eru iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið, Reykjavíkurborg, Samtök iðnaðarins, Ístak hf. og Landsbanki Íslands hf.

Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, mun opna sýninguna Verk og vit 2006, sem mun standa í fjóra daga, en sýningin verður opin fagaðilum fimmtudag og föstudag, 16. og 17. mars, og almenningi laugardag og sunnudag, 18. og 19. mars. Nánari upplýsingar um sýninguna Verk og vit 2006 er að finna á heimasíðu sýningarinnar, verkogvit.is.