Fimm íslensk fyrirtæki, sem koma að jarðhita- og vatnsaflsverkefnum í Rúmeníu, fengu í vikunni samtals 1,6 milljarða króna styrk úr Uppbyggingarsjóði EES vegna verkefna sinna. Frá þessu er sagt í Fréttablaðinu í dag.

Fyrirtækin sem um ræðir eru Mannvit, Ísor, Iceland Geothermal Engineering, Landsvirkjun Power og Verkís. Heildarumfang verkefnanna er um fjórir milljarðar króna. Verkefnin á sviði jarðhita eiga eftir að auka nýtingu hans um 30 prósent í Rúmeníu.

Styrkurinn er hluti af orkuáætlun Rondine en áætlunin fjármagnar verkefni sem stuðla að aukinni notkun endurnýjanlegrar orku í Rúmeníu. Framlag Íslands til Uppbyggingarsjóðs EES nemur um 960 milljónum króna á ári.