Stærsta sjávarútvegsfyrirtæki heims á árinu 2019 var japanska fyrirtækið Maruha Nichiro Corporation. Árstekjur fyrirtækisins námu rúmum 917 milljörðum króna miðað við gengi Bandaríkjadals sama ár.

Þrefalt stærri

Um þetta er fjallað í fréttabréfi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) sem setur þessa stærð í íslenskt samhengi, en útflutningsverðmæti Íslendinga af sjávarafurðum og eldi árið 2019 var um 285 milljarðar króna.

„Það þýðir að tekjur þessa eina japanska fyrirtækis voru rúmlega þrisvar sinnum hærri en samanlagðar útflutningstekjur allra sjávarútvegs- og eldisfyrirtækja á Íslandi. Jafnframt má geta þess að ef öll íslensku fyrirtækin væru sameinuð í eitt fyrirtæki og útflutningsverðmæti þeirra endurspeglaði tekjur þess, þá myndi það einungis skila sér í 11. sæti á lista yfir 100 stærstu sjávarútvegsfyrirtæki heims,“ segir í samantekt SFS en heimildin er skýrsla Undercurrent News (UCN) þar sem teknar eru saman tekjur 100 stærstu sjávarútvegsfyrirtækja heims.

Eigum tvö á lista

Þessi 100 fyrirtæki eru í 27 löndum. Japönsk fyrirtæki eru fyrirferðamest á listanum, bæði hvað varðar fjölda og tekjur. Alls er 21 japanskt fyrirtæki á listanum og samanlagðar tekjur þeirra um þriðjungur af heildartekjum 100 stærstu fyrirtækjanna. Miðað við tekjur er Noregur í öðru sæti með hlutdeild upp á 12%, en samtals eru níu norsk fyrirtæki á listanum.

Samkvæmt skýrslunni ná tvö íslensk fyrirtæki inn á listann en samanlagðar tekjur þeirra eru um 1,2% af heildartekjum þeirra 100 stærstu. Þau eru annars vegar Samherji, sem var í 38. sæti, og hins vegar sölufyrirtækið Iceland Seafood International, sem var í  67. sæti. Þessi fyrirtæki eiga það sameiginlegt að stór hluti af starfsemi beggja er á erlendri grundu.