Íslensk fyrirtæki eru mikið skuldsettari en fyrirtæki á hinum Norðurlöndunum og skiptir þá ekki máli hvaða mælikvarði er skoðaður. Það skiptir heldur ekki máli ef fyrirtæki á Norðurlöndum eru flokkuð í lítil, millistór og stór fyrirtæki. Alls staðar eru skuldahlutföll íslenskra fyrirtækja óhagstæðari. Þetta kemur fram í skýrslu sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur nýverið sent frá sér.

Til að mynda er hlutfallið skuldir á móti eignum tæplega 3 sinnum hærra en meðaltal hinna Norðurlandanna. Skuldir á móti eigin fé er 3,6 sinnum hærra.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn skoðar skuldsetningu eftir mismunandi greinum og eru Íslendingar alls staðar skuldsettastir. Í þjónustugreinum er hlutfallið skuldir á móti eignum 6,5 sinnum hærra en meðaltal Norðurlandanna.

Það sem einnig kemur fram í skýrslunni er að íslensk fyrirtæki eru með hærra hlutfall skammtímaskulda en Finnland, Noregur og Svíþjóð.

Skuldsetning íslenskra fyrirtækja hefur vaxið hratt á síðustu árum og hefur hlutfall skulda farið úr 80% af landsframleiðslu árið 1997 í 160% árið 2004.