Nýverið boðaði TM Software, sem er í eigu Nýherja[ NYHR ], til kynningar á upplýsingatæknilausnum sínum á Hótel KEA á Akureyri. Kynningin bar heitið „Léttara líf með TM Software“ og var markmiðið með henni að kynna fyrirtækjum og stofnunum á Norðurlandi þær rekstarlausnir sem í boði eru hjá félaginu, segir í fréttatilkynningu.

Sérstaka athygli vöktu kynningar um Microsoft SharePoint skjalastýringarkerfið og upplýsingaöryggisvörur TM Software en augljóst er að íslensk fyrirtæki eru að opna augun fyrir þeirri staðreynd að Internetið býður hættunni heim við rekstur stærri sem smærri tölvukerfa ef ekki er að gáð, segir í fréttatilkynningunni. Fjölmennt var á kynningunni, segir í fréttatilkynningunni, og var Valgerður Sverrisdóttir, alþingismaður, á meðal gesta.

Kynningin hófst með morgunverði á Hótel KEA en síðan opnaði Sigurður Þórarinsson, framkvæmdastjóri hjá TM Software, kynninguna og kynnti fyrirtækið fyrir gestum. Því næst tók Sigvaldi Óskar Jónsson, ráðgjafi hjá TM Software, við og hélt fyrirlestur um Microsoft Office SharePoint Server og innleiðingu kerfisins hjá tveimur íslenskum fyrirtækjum.

SharePoint er lausn sem samþættar skjalastjórnun og aðgengi að upplýsingasjóði fyrirtækja og hefur reynst fyrirtækjum einstaklega vel við skjalavörslu og -stýringu.

Sigurður Arnar Ólafsson, sölu- og viðskiptastjóri TM Software á Akureyri, kynnti síðan kerfisveitu og hýsingu hjá TM Software og þá hagræðingu sem sú þjónusta getur haft í för með sér fyrir fyrirtæki. Guðjón Már Halldórsson, ráðgjafi hjá TM Software, kynnti m.a. Microsoft Small Business Server sem er hagkvæm lausn fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki með allt að 70 útstöðvar og Microsoft Exchange í kerfisveitu sem veitir fullkomið aðgengi að tölvupósti t.a.m. með vefaðgangi og í farsímann. Sigurður Arnar fjallaði síðan um kerfisleigu á stafrænum IP-símkerfum sem í felst mikil hagræðing og auknir notkunarmöguleikar fyrir stór sem smá fyrirtæki.

Að lokum fjallaði Kristinn Guðjónsson, fyrirliði upplýsingaöryggis hjá TM Software, um þær öryggislausnir sem TM Software býður upp á, þ.á.m. öryggispóstgátt af fullkomnustu gerð, vefsíu til að hindra aðgang að óæskilegum vefsvæðum og niðurhal, innbrotavarnir og –greiningarkerfi sem hindrar árásir á tölvukerfi, kerfisvöktun og afritunartöku svo eitthvað sé nefnt.