IR magazine, sem hefur um fimm ára skeið veitt verðlaun fyrir góð fjárfestatengsl, hefur tilkynnt hvaða félög eru tilnefnd til verðlauna í ár. Þau íslensku félög sem eru tilnefnd í flokki stærri fyrirtækja eru Íslandsbanki, KB banki og Össur. Í flokki smærri fyrirtækja hljóta FL Group, Marel og Nýherji verðlaunin. Á þennan hátt eru veitt verðlaun fyrir hvert Norðurlandanna fyrir sig og til viðbótar ýmis verðlaun fyrir Norðurlöndin í heild.

Þau félög á Norðurlöndum sem talin eru sinna fjárfestatengslum best eru Atlas Copco, SCA og Stora Enso. Að þessu sinni fer verðlaunaafhendingin fram á Íslandi, á Nordica Hotel 26. maí. Viðskiptablaðið er samstarfsaðili IR magazine á Íslandi. Fyrir tveimur árum var stofnað félag um fjárfestatengsl hér á landi (sjá www.fft.is) en því er ætlað að vera vettvangur fyrir umræðu meðal þeirra sem sinna upplýsingagjöf á markaðnum.