Síminn og Íslensk getspá hafa undirritað samning um þjónustu á heildarfjarskiptum til þriggja ára. Samningurinn felur meðal annars í sér breytingar á gagnaflutningstengingum í getrauna- og lottókassa sem mun hafa aukið rekstraröryggi í för með sér fyrir Íslenska getspá að því er segir í tilkynningu.

Aðrir þættir samningsins eru á þá leið að Íslensk getspá mun áfram nota farsíma og talsímaþjónustu hjá Símanum ásamt því að fjarvinnulausnir Símans verða í boði fyrir starfsfólk Íslenskrar getspár. Félögin hafa einnig átt gott samstarf um þróun á nýjum leiðum við að bjóða upp á þjónustu Íslenskrar getspár.  Slíkt samstarf er mikilvægt þegar tekið er mið af þeim mikla hraða sem einkennir tækniþróun og þjónustuframboð á fjarskiptamarkaðnum.

Elín Þórunn, framkvæmdastjóri fyrirtækjamarkaðar Símans segist afar ánægð með þennan samning. “ Það er okkur hjá Símanum mikið gleðiefni að Íslensk getspá valdi okkur til áframhaldandi samstarfs. Síminn leggur mikið upp úr þróunarstarfsemi og því að skoða hvernig fjarskipta- og upplýsingatæknin getur opnað fyrirtækjum nýjar leiðir við að bjóða fram þjónustu sína.”  Stefán Konráðsson framkvæmdastjóri Íslenskrar getspár tekur undir sjónarmið Elínar. „ Rekstraröryggi og tæknilegar lausnir Símans gera fyrirtækið það hæfasta á þessu sviði á markaðnum í dag“.


Íslensk getspá rekur sölukerfi á rúmlega 250 sölustöðum um allt land og eru allir sölukassar beinlínutengdir við móðurkerfi fyrirtækisins í Reykjavík. Íslensk getspá sér um rekstur á íslenska lottóinu, vikingalottóinu, getraunum og Lengjunni. Fyrirtækið er í eigu Íþrótta- og ólympíusambands Íslands, Öryrkjabandalags Íslands og  Ungmennafélags Íslands.

Um Símann:
Síminn hefur ávallt verið í forystu á íslenskum fjarskiptamarkaði og veitir þjónustu til einstaklinga og fyrirtækja. Þjónustuframboð Símans samanstendur af víðtæku þjónustuframboði á fastlínu, farsíma, og gangaflutningslausnum ásamt sjónvarpsþjónustu yfir ADSL. Síminn leggur áherslu á fræðslu, faglega ráðgjöf og þjónustulipurð í samskiptum þar sem markmiðið er að gera flókna hluti einfalda.