Svo virðist sem Bandaríkjamenn fylgist vel með þeirri umræðu sem fram fer hérlendis um einhliða upptöku kanadollars.

Fjallað var um málið á útvarpsstöðinni Vermont Public Radio í gær. Þar kom fram að Ísland væri örsmá þjóð í miklum fjárhagslegum vandræðum. Við værum enn að jafna okkur eftir kreppuna 2008 og krónan væri í mjög slæmu ástandi.

Í þættinum var rætt við Íslendinginn Baldur Héðinsson. Hann var kynntur af þáttastjórnendum sem fyrrum starfsmaður bandarísku útvarpsstöðvarinnar, sem snúinn væri heim til starfa við áhættustýringu í íslenskum banka. Baldur fór yfir stöðu mála hér á landi og ræddi jafnframt við Ársæl Valfells sem sagði fleiri nota gjaldmiðil skemmtigarða Disney, Disney dollarann, en íslensku krónuna.

Þá sagði óljóst hvað Íslendingar myndu gera. Forsætisráðherrann aðhylltist Evrópusambandið og evruna, bæði væru kostir og gallar við einhliða upptöku Kanadollars og hugsanlega myndu Íslendingar halda sig við krónuna – og reyna að vanda betur til verka.

Hlusta má á umfjöllunina hér .