Íslenska fyrirtækið Reykjavik Eyes vann nýlega til verðlauna á alþjóðlegu hönnunarverðlaununum Universal Design Awards 09 sem afhent voru á CeBit sýningunni í Þýskalandi fyrr í þessum mánuði.

Reykjavik Eyes fékk verðlaun fyrir byltingarkennda hönnun á gleraugnaumgjörðum.

Í tilkynningu frá fyrirtækinu kemur fram að þetta er í fyrsta sinn sem íslensk hönnun hlýtur þessi eftirsóttu verðlaun, en meðal annarra verðlaunahafa í ár voru fyrirtæki á borð við  Fujitsu, Panasonic og Microsoft. Vinningshafar árið 2008 voru meðal annars iPod og iPhone frá Apple.

Reykjavik Eyes fékk verðlaun í flokknum „frístundir / lífstíll“ (e. Leisure/Livestyle) en dómnefndin samanstóð af alþjóðlegum sérfræðingum á sviði hönnunar.

Í umsögn hennar kemur meðal annars fram að umgjarðir Reykjavík Eyes séu með þeim léttustu og sterkustu sem framleiddar hafa verið og að þær séu einstök verkfræðileg nýsköpun sökum einfaldleika síns. Gunnar Gunnarsson hjá Reykjavik Eyes segir viðurkenningu sem þessa skipta miklu máli fyrir ungt fyrirtæki sem er að hasla sér völl.

Gleraugnaumgjarðirnar eru afrakstur alveg nýrrar framleiðslutækni sem er árangur yfir fjögurra ára þrotlausar þróunarvinnu.

„Gleraugnaumgjörðin er skorin í heilu lagi úr örþunnri títanplötu og er ekki búin neinum skrúfum, hjörum eða öðrum aukahlutum. Hún er því laus við öll samskeyti og suðupunkta sem veikt geta umgjörðina,“ útskýrir Gunnar í tilkynningunni.