Scandlines HH Ferries Group, sem árlega flytur milljónir farþega yfir Eyrarsundið, hefur samið við Advania MobilePay um smíði og rekstur á alhliða farsímalausn fyrir viðskiptavini sem ferðast með ferjum félagsins milli Helsingjaeyrar í Danmörku og Helsingjaborgar í Svíþjóð.

Samkvæmt fréttatilkynningu frá Advania er fyrsta útgáfa af lausninni þegar komin í notkun, en með henni geta viðskiptavinir HH Ferries keypt og framvísað farmiðum með snjallsímanum í stað þess að bíða í röð og kaupa þá upp á gamla mátann.  Einnig verður hægt að greiða fyrir ýmis konar vörur og þjónustu um borð, auk þess sem viðskiptavinir geta skráð sig í vildarklúbb og fengið þannig aðgang að tilboðum og ýmis konar afsláttum.  Lausnin gerir farþegum jafnframt kleift að nálgast upplýsingar um áætlun, brottfarartíma og ferðatíma sem byggður er á rauntímagögnum.

Advania MobilePay er sjálfstætt félag í eigu Advania, Símans og annarra fjárfesta og hefur undanfarin misseri unnið að þróun almennrar greiðslulausnar fyrir farsíma.