Skuldsetning heimila og fyrirtækja hér á landi telst vera lítil í sögulegu samhengi hvort tveggja í hlutfalli við tekjur og landsframleiðslu.

Teljast skuldirnar sem hlutfall af ráðstöfunartekjum nú þær næstlægstu á öllum norðurlöndunum, en um áratugaskeið voru þær næsthæstar hér á landi á eftir Danmörku. Einungis Finnland er nú með lægra hlutfall. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýju riti Seðlabanka Íslands um fjármálastöðugleika.

Skuldahlutfallið lækkað hratt

Skuldir heimila voru áætlaðar í lok annars ársfjórðungs sem 156% af áætluðum ráðstöfunartekjum, en heildarskuldirnar námu 1.851 milljarði króna í lok júní.

Hefur hlutfallið lækkað mjög hratt síðustu misseri vegna lækkunar skulda og mikillar hækkunar ráðstöfunartekna, en frá árinu 2010 hefur hlutfallið lækkað um 94 prósentustig.

Vegna hækkunar íbúðaverðs

„Ef aðeins er horft til einstaklinga sem eru með íbúðaskuldir eru heildarskuldir þeirra í hlutfalli við ráðstöfunartekjur 271% og lækkar hlutfallið um 25 prósentur á milli ára,“ segir í ritinu.

„Veðsetningarhlutfall íbúðarhúsnæðis var að meðaltali 37% í lok júní og lækkaði um fjórar prósentur á 12 mánaða tímabili. Lækkun veðsetningarhlutfalls síðustu mánaða er fyrst og fremst vegna hækkunar íbúðaverðs.“

Einstaklingum á vanskilaskrá fækkar

Hlutfall lána í vanefndum eða frystingu hjá stóru viðskiptabönkunum og Íbúðarlánasjóði lækkaði um 1,4 prósentustig á fyrstu átta mánuðum ársins og var það komið niður í 5,8% í lok ágústmánaðar. Ef horft er til síðustu 12 mánuða hefur vanefndarhlutfallið lækkað um 2,5 prósentur.

Í septemberlok hafði fjölda einstaklinga á vanskilaskrá fækkað um 5% miðað við 12 mánuðum þar á undan, og var heildarfjöldi þeirra 24.417 þúsund.

Ekki lækkað jafnmikið í tvo áratugi

„Einstaklingar með skráð gjaldþrot og árangurslaust fjárnám voru 6.365 í lok september og hefur fækkað um 2% frá áramótum,“ segir í ritinu.

„Hlutfall framteljenda sem skulda meira en þrefaldar ráðstöfunartekjur var um síðustu áramót 22,5% og lækkaði um 2,8 prósentur milli ára.27 Hlutfallið hefur ekki lækkað jafn mikið á einu ári sl. tvo áratugi.“