Íslensk heimili eru í betri stöðu en evrópsk og nálægt því sem gerist á hinum Norðurlöndunum. Mánaðarleg útgjöld heimilanna vegna húsnæðir sem hlutfall af ráðstöfunartekjum er lægra en í mörgum Evrópulöndum og hlutfallslega færri hér sem eiga erfitt með að ná endum saman í kjölfar hrunsins en á meginlandinu. Þrátt fyrir þetta eru Íslendingar Evrópumeistarar í vanskilum.

Þetta er mat greiningardeildar Arion Banka sem skoðar stöðu íslenskra heimila í samanburði við rannsókn Evrópusambandsins um lífskjör í álfunni.

Húsnæði
Húsnæði

Greiningardeildin segir að Íslendingar skeri sig frá öðrum þjóðum að því leyti að fólk hér leggi almennt mikið á sig að eignast húsnæði, jafnvel þótt það geti tekið ansi langan tíma í mörgum tilvikum að eignast í raun eitthvað eigið fé í húsnæðinu.

Þá segir deildin að Ísland standi sér á báti miðað við mörg Evrópulönd sökum þess að íslensku húsnæðislánin eru verðtryggð og stór hluti íbúa „eigi“ húsnæðið sem hann býr. Þá virðist sem verðtryggingin lækki þau fjárútlát sem Íslendingar þurfa að standa skil á í hverjum mánuði. Á móti leiði þyngri greiðslur vegna húsnæðis í löndum eins og Danmörku og í Noregi til þess að einstaklingar geta eignast húsin sín fyrr en ella.

Auðvelt að fá fasteignalán hér

Greiningardeildin telur að Íslendingar hafi almennt átt of auðvelt með að taka lán og fjárfesta í húsnæði miðað við það sem gerast í öðrum Evrópulöndum. Það kunni jafnframt að skýra þá þróun sem verið hafi í vanskilum meðal íslenskra húsnæðiseiganda. Þróunin erlendis, þar sem vanskil eru minni, kunni að bera keim af því að erfiðara sé fyrir einstaklinga að komast í gegnum greiðslumat þegar þeir loks leggja það á sig að eignast húsnæði og því minni líkur á að viðkomandi lendi af og til í vanskilum.

Vanskil
Vanskil

„Þá gerði auðvelt aðgengi [...] e.t.v. það að verkum að margir keyptu sér húsnæði án þess að ráða við greiðslurnar af lánunum. Þær aðgerðir sem ráðist var í eftir hrun til að auðvelda heimilum að standa skil af húsnæðiskostnaði, s.s. 110% leiðin og frysting gengistryggðra lána, hafa eflaust einnig orðið til þess að hlutfall heimila sem greiða meira en 40% af ráðstöfunartekjum sínum í húsnæðiskostnað í mánuði hverjum hefur farið lækkandi. Að lokum má nefna að ef hlutfall húsnæðiskostnaðar af ráðstöfunartekjum hjá öllum Íslendingum er skoðað (ekki sýnt á mynd) þá kemur í ljós að árið 2010 greiddu íslensk heimili 21% af ráðstöfunartekjum sínum í húsnæði. Þetta hlutfall er enn fremur undir meðalgreiðslum evrópskra ríkja,“ að sögn greiningardeildar Arion Banka.

© BIG (VB MYND/BIG)