Hlutfall heimila sem ekki telja sig hafa fjárhagslegt bolmagn til að mæta óvæntum útgjöldum hér á landi er svipað og í Bretlandi og á Ítalíu. Kemur þetta fram í samræmdri lífskjararannsókn Evrópusambandsins frá vorinu 2011, en fjallað er um þetta af Hagfræðideild Landsbankans í dag.

Athygli vekur að þetta hlutfall, sem hér á landi var þá í kringum 38%, er lægra í löndum eins og Grikklandi og Portúgal. Ekki ætti að aftur á móti að koma á óvart að það er lægst í Noregi og Svíþjóð. Þegar könnunin er gerð er hlutfallið hæst í Lettlandi, eða 80%, en miðað við þróunina þar í landi frá ársbyrjun 2011 má ætla að það hafi lækkað síðan þá. Eins er ekki ólíklegt að staða íslenskra heimila hafi batnað á þessum tíma og að staða grískra heimila hafi versnað.