Ávöxtun á norrænum hlutabréfamörkuðum er nokkuð jöfn nú þegar líður að lokum annars ársfjórðungs, að Íslandi undanskildu, að sögn greiningardeildar Glitnis.

"Úrvalsvísitalan í Kauphöllinni á Íslandi hefur hækkað langmest eða um rúmlega 27% en bréf í Kaupþingi, Landsbankanum og Glitni vega um tvo þriðjuhluta af virði vísitölunnar. Norski markaðurinn hefur hækkað skarpt undanfarið og nemur ávöxtunin frá áramótum ríflega 14%. Hlutabréf skráð í Helsinki hafa einnig hækkað um 14%. Hlutabréf í Stokkhólmi hafa hækkað um 11% og um 10,5% í Kaupmannahöfn," segir greiningardeildin.

Hún segir ávöxtun stærstu félaganna í Noregi misjöfn á árinu af ýmsum ástæðum. DnBNOR, sem lækkað hefur um 6,09%, hefur skilað lakari ávöxtun í ár en ýmis önnur félög, t.d. Hydro sem hækkað hefur um 16,25%, það sem af er ári.

"Í Finnlandi hafa bréf í Nokia (+36%) hækkað myndarlega í ár og haft mest af segja um hækkun vísitölunnar þar í landi. Í Svíþjóð hafa bréf í Volvo hækkað mikið (+56%) en sænska úrvalsvísitalan hefur meðal annars liðið fyrir slaka ávöxtun bréfa í Ericson (-7%) og Nordea (+1,4%)," segir greiningardeildin.