Gengi hlutabréfa á Norðurlöndum hefur þróast misjafnlega það sem af er ári en aðalvísitölur í kauphöllunum hafa þó allar hækkað, samkvæmt upplýsingum frá greiningardeild Glitnis. Greiningaraðilar sem vaka yfir norrænum mörkuðum eru þokkalega bjartsýnir á ásættanlega þróun á árinu.

"Úrvalsvísitalan í Kauphöllinni á Íslandi hefur hækkað langmest, eða um 17,3%. Hlutabréf skráð í Helsinki hafa hækkað næst mest, eða um ríflega 4% og í Kaupmannahöfn og Stokkhólmi um 3,8%. Hlutabréf í Osló hafa hins vegar einungis hækkað um 0,5% í ár. Mörg af stærstu félögunum í Noregi hafa lækkað á árinu af ýmsum ástæðum. Þannig hafa Statoil (+0,3%), Hydro (-2,8%) og DnBNOR (-5%) ekki skilað góðri ávöxtun í ár og hefur aðalvísitalan liðið fyrir það.

Í Finnlandi hefur Nokia (+6,5%) haft mest af segja um hækkun vísitölunnar þar í landi. Í Svíþjóð hafa bréf í Volvo hækkað myndarlega (+19%) en bréf í Ericson (-11,6%) og Nordea (-3%) lækkað á móti," segir greiningardeildin.