Hlutabréf fyrirtækja þar sem íslensk fyrirtæki eiga eignarhlut, lækkuðu nokkuð í verði á hlutabréfamarkaði í London í gær. Ástæðan er sögð fyrst og fremst sú að væntingar fjárfesta um að Íslendingar geri yfirtökutilboð í viðkomandi fyrirtæki á næstunni hafa minnkað.

Breska dagblaðið The Independent segir frá þessu í dag. Mesta lækkunin var á bréfum Singer & Friedlander. Lækkunin var 22,5 pens á hlut og var lokaverðið 279 pens. KB banki og Burðarás eiga samtal 28,8% hlut í bankanum og vangaveltur hafa verið uppi um að KB banki ætli að reyna yfirtöku. Væntingar um slíkt hafa leitt til þess að hlutabréf S&F hafa hækkað um 50% frá því KB banki hóf að kaup hlutabréf.

Hlutabréf EasyJet lækkuðu um 5 pens á hlut og var lokaverðið 147 pens. Flugleiðir keyptu 8,4% fyrir nokkrum dögum. Sérfræðingar telja að kaup Flugleiða hafi gert það að verkum að bréfin haldast tiltölulega hátt í verði.

Geest matvælafyrirtækið lækkaði um 4,5 pens á hlut niður í 544,4 pens. Bakkavör á 20% hlutafjár í fyrirtækinu og hafa margir búist við yfirtökutilboði.

Hlutabréf Numis Securities, verðbréfafyrirtækisins, lækkuðu um 7,5 pens og var lokaverðið 655. Sögusagnir hafa verið um áhuga Landsbankans á að eignast fyrirtækið.