Grindvíkingar tóku fyrr í vikunni fagnandi á móti Páli Jónssynni GK, nýju línuskipi Vísis hf. og fyrstu nýsmíði fyrirtækisins. Við stjórnvölinn var Gísli V. Jónsson. Siglingin frá Alkor skipasmíðastöðinni í Gdansk í Póllandi sóttist vel þrátt fyrir afleitt veður mestan partinn. Heimsiglingin er 1.500 sjómílur og tók sex og hálfan sólarhring.

Páll Jónsson er fyrsta sérsmíðaða línuskipið í íslenska flotanum frá 1992. Hönnun skipsins var í höndum Navis í nánu samstarfi við Vísi hf. og hefur hún vakið athygli langt út fyrir landsteinana.

Gísli V. Jónsson er í hópi fengsælustu skipstjóra landsins auk þess sem ferill hans hefur til þessa verið einkar farsæll. Hann hefur nú verið til sjós í 54 ár, þar af sem skipstjóri í 47 ár.  Hjá Vísi í Grindavík hefur hann verið síðastliðin 22 ár og stýrt línuskipinu Páli Jónssyni GK frá árinu 2001.

Bræla alla leið

„Það var vont veður á heimsiglingunni. Það var bræla þegar við fórum frá Gdansk og alla heimsiglinguna. Þegar við komum út fyrir Skagen var 2,8 mílna straumur á móti og 25 metra vindhraði. Vindurinn fór aldrei niður fyrir 15 metra á sekúndu og mestur var vindhraðinn 30 metrar. Veðrið hefur hægt á okkur en skipið lætur mjög vel að stjórn. Við höfum fengið vind á hlið og á móti. Það er varla hægt að bera nýja skipið og það eldra saman. Það nýja er þremur metrum breiðara og aðeins lengra. Það gengur líka mun meira með stærri skrúfu en vélaraflið er þó ekki nema 1.000 hestöfl. Það hægir því á honum ef það er hart á móti. Við þessar aðstæður hefur skipið verið að eyða um 150 lítrum á klukkustund. Vélin nánast sér um sig sjálf. Það er tölva sem stýrir álaginu eftir aðstæðum hverju sinni þannig að vélin er aldrei yfirkeyrð,“ segir Gísli.

Nú tekur við frágangur og fínstillingar í landi næstu tíu daga en Gísli segir enga tímapressu á neinu. Eldra skipið er á veiðum og nýja skipið verður vel undir vertíðina búið þegar það heldur úr höfn til veiða í byrjun febrúar.

„Sentimetrunum mínum fer fækkandi. Ég verð sjötugur núna um mánaðamótin en ég hef svo sem ekki önnur sérstök áhugamál en vinnuna. Við minnkum við okkur og verðum tveir skipstjórar og skiptum þessu á milli okkar, ég og Benedikt Páll Jónsson, sem hefur verið stýrimaður á móti mér á eldra skipinu.“

Góð reynsla frá Alkor

Kjartan Viðarsson, útgerðarstjóri hjá Vísi, hefur fylgt smíði skipsins eftir í Póllandi og þekki hvern krók og kima í skipasmíðastöðinni. Hjá Alkor var Fjölni GK breytt árið 2015 og 2018 lauk endurbyggingu á Sighvati GK. Hann segir enga ákvörðun hafa verið tekna um eldi Pál Jónsson. Skipið sé í góðu standi en vissulega dálítið aldurhnigið.

Ný Páll Jónsson er 45 metra langur og 10,5 metrar á breidd. Útgerðarmynstrið verður hið sama og áður, þ.e.a.s. viku úthald á línu og komið heim með ferskan fisk í salt og ferskfiskútflutning. Aðbúnaður áhafnarinnar verður allur annar og betri með eins manns klefum. Skipið er, sem fyrr segir, hannað af Navis í samstarfi við Vísi. Allur rafbúnaður er sömuleiðis hannaður og framleiddur á Íslandi af Raftíðni. Siglingatæki eru fengin frá Skiparadíó í Grindavík. Fiskvinnslukerfið um borð er smíðað af Skaganum 3X á Ísafirði. Þá verður um borð flokkunarkerfi frá Marel. Fiskurinn verður stærðar- og þyngdarmældur með sjálfvirkum hætti. Skammtari sér um að skammta nákvæmlega rétta þyngd í körin sem fara flokkuð og skráð ofan í lest. Skipið verður línukerfi frá Mustad sem fengið er frá Ísfelli. Virðisaukinn sem verður eftir á Íslandi við smíði skipsins hleypur á hundruðum milljóna króna.